Listamennirnir, Garðbæingarnir og æskuvinirnir Guðjón Viðarsson Scheving og Kári Þór Arnarsson halda sína fyrstu formlegu sýningu undir nafninu Skripo í Epal Gallerí á Laugavegi dagana 4.–25. apríl 2025. Opnun sýningarinnar fer fram í dag, föstudaginn 4. apríl kl. 17:00–19:00, þar sem gestum gefst tækifæri til að skoða og kaupa málverk eða eftirprentun í takmörkuðu upplagi.
Sköpun síðan á leikskólaárunum í Hæðarbóli
Það sem gerir list þeirra sérlega áhugaverða er óvenjulegt samspil, bæði á striganum og í vináttunni. Guðjón og Kári eru báðir fæddir árið 1997 og hafa verið óaðskiljanlegt tvíeyki í sköpun síðan á leikskólaárunum í Hæðarbóli í Garðabæ. Þar hófst vinátta sem hefur fylgt þeim alla tíð og þá jafnframt sú leið að mála, teikna og skapa saman.

Undir merkinu Skripo mála þeir félagar listaverk á einstakan hátt: þeir vinna á tvo striga samtímis og skiptast á að teikna fígúrur og myndefni – oft án þess að vita fyrirfram hvert verkið stefnir. Í sumum tilfellum málar annar aðeins augu eða handlegg, áður en þeir skipta um striga og halda áfram á grunni hins. Útkoman verður mynd sem er sannkallað samspil innsæis, leikgleði og samstarfs.
Í viðtali við Garðapóstinn í apríl fyrir ári síðan sögðu þeir frá uppruna aðferðarinnar, sem á rætur að rekja til grunnskóladaga þeirra: „Við þróuðum með okkur aðferð þar sem annar teiknar augu, hinn nef – og svo koll af kolli. Úr verða karakterar sem lifna við á striganum,“ sagði Guðjón þá.
Eftir að þeir máluðu sitt fyrsta Skripo-verk sumarið 2023 tók boltinn að rúlla. „Við fengum margar pantanir og fólk í kringum okkur fór að biðja um myndir,“ bætti Kári við.
Sýningin í Epal markar því stórt skref í listferli þeirra, þar sem þeir fá tækifæri til að kynna verk sín fyrir breiðari hópi, en á sama tíma halda í þann kjarna sem hefur einkennt samstarf þeirra frá fyrstu teikningunum.
Sýning Skripo – Epal Gallerí, Laugavegi
Dagsetning: 4.–25. apríl 2025
Opnun: 4. apríl kl. 17:00–19:00
Verkin: Málverk og eftirprent í takmörkuðu upplagi
Forsíðumynd: Listamennirnir og æskuvinirnir Guðjón (til vinstri) og Kári opna sínu fyrstu formlegu sýningu í Epal í dag, föstudaginn 4. apríl kl. 17